Stefni á að vinna allt sem er í boði

Elsa Guðrún Jónsdóttir kemur fyrst í mark í dag.
Elsa Guðrún Jónsdóttir kemur fyrst í mark í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Elsa Guðrún Jónsdóttir vann fyrstu greinina á Skíðamóti Íslands sem hófst á Akureyri í dag. Varð hún fyrst í mark í 1 km sprettgöngu. Elsa Guðrún var ekki að vinna sinn fyrsta titil og fyrsta spuningin sem hún fékk var þessi:

Veistu númer hvað þessi titill er hjá þér?

„Ég er nú ekki alveg með það á hreinu en pabbi skrifar allt niður og hann segir að þessi hafi verið númer 50.“

Ertu viss um að bókhaldið sé rétt hjá kallinum?

„Nei. Eða, jú eiginlega. Hann er búinn að skrá öll mót sem ég hef keppt á. Öll litlu mótin og öll mót erlendis. Þetta er mjög ýtarleg dagbók hjá honum.“

Það eru svo þrír titlar í boði í viðbót á mótinu. Ætlarðu að taka þá alla?

„Já, já, já. Það var helst þessi ganga í dag sem ég var pínu smeik við. Þetta er svo stutt og það getur allt gerst og þarf allt að ganga upp. Það má ekki detta þá er þetta bara búið. Ég er meira fyrir að fara lengri vegalengdirnar.“

Svo er boðganga síðasta daginn. Þú ert ein frá Ólafsfirði. Verður ekki erfitt að ná í þriggja manna lið?

„Við erum fleiri en ég veit ekki hvað verður, hvort við búum til sveit. Svo er búið að tala um að ég fái undanþágu og keppi með strákunum. Ég bara veit ekki hvað verður.“

Hver er lykillinn að vinna í svona stuttri göngu?

„Það er mjög gott að byrja vel og ná góðu starti. Það er eiginlega mesti veikleikinn minn þar sem það snýst um ýtingar. Ég var ákveðin í að taka þetta í brekkunum ef ég myndi ekki byrja nógu vel. Það hefur alla vega verið mesti styrkleikinn minn, að tæta upp brekkurnar.“

En hvor stíllinn höfðar frekar til þín, sá hefðbundni eða skautastíllinn?

„Mér hefur gengið jafn vel með þá báða en svona síðari ár þá hefur mér fundist hefðbundna gangan skemmtilegri. Sérstaklega þegar það koma góðar brekkur og maður nær góðu skrefi. Maður fær ekki jafn mikla mjólkursýru og það er kostur.“

Hvað ætlarðu að halda lengi áfram? Hættirðu kannski ekki fyrr en titlarnir verða 75 eða 100?

„Ég tók pásu í fimm ár og byrjaði aftur í hittifyrra og að meiri alvöru í fyrra. Ólympíuleikarnir eru á næsta ári og ég hef áhuga á að komast á þá. Svo kannski fer ég að róa mig. Ég er í fullri vinnu, með tvö börn og get ekki gefið nógu mikinn tíma í þetta“ sagði meistarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert