HK varð Íslandsmeistari

Leikmenn HK fagna Íslandsmeistaratitli sínum.
Leikmenn HK fagna Íslandsmeistaratitli sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK varð Íslandsmeistari í blaki karla eftir 3:2-sigur sinn gegn Stjörnunni í þriðja leiknum í úrslitaeinvígi liðanna í Ásgarði í kvöld. HK vann einvígið þar af leiðandi 3:0 og varð Íslandsmeistari sjötta árið í röð.

HK hafði betur í fyrstu tveimur hrinunum í leiknum, 25:22 og 25:17. Stjarnan lagði þó ekki árar í bát og jafnaði metin með sigri í næstu tveimur hrinum leiksins, 25:22 og 25:11. Úrslitin réðust því í oddahrinu þar sem HK tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 15:11-sigri.

Theódór Óskar Þorvaldsson var stigahæstur í liði HK með 22 stig og Andreas Hilmir Halldórsson kom næstur með 14 stig. Michael Pelletier og Róbert Karl Hlöðversson voru hins vegar atkvæðamestir í liði Stjörnunnar með 23 stig hvor.

HK hefur nú orðið Íslandsmeistari tíu sinnum í blaki karla, en Þróttur Reykjavík er sigursælasta félagið í sögunni í blaki karla með 14 Íslandsmeistaratitla.

Þá er Þróttur Reykjavík eina liðið sem hefur unnið fleiri Íslandsmeistaratitla í röð í blaki karla eða sjö talsins, en það gerði liðið á árunum 1981 til 1987. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert