Serena Williams greindi óvart frá óléttunni

Serena Williams fagnar þegar úrslitastigið var í höfn í Ástralíu …
Serena Williams fagnar þegar úrslitastigið var í höfn í Ástralíu í janúar. AFP

Tennisstjarnan Serena Williams segir að hún hafi alls ekki ætlað að opinbera það á dögunum að hún væri ólétt. Hún virðist hins vegar ekki kunna nógu mikið á smáforritið Snapchat og því hafi fréttirnar spurst út.

Serena tók mynd af sér þar sem sést að hún gengur með barni og skrifaði við „20 vikur“. Myndin var sýnileg á Snapchat-reikningi hennar, áður en henni var svo eytt. Hún hefur nú upplýst að um algjört óviljaverk var að ræða.

„Ég var bara að taka myndir og vista þær fyrir mig. Ég hafði verið svo góð í að leyna þessu, en þarna fór þetta óvart frá mér,“ sagði Serenea. Hún segist jafnframt hafa komist að því aðeins tveimur dögum fyrir Opna ástralska meistaramótið í janúar að hún væri ólétt. Serena endaði sem sigurvegari mótsins.

„Þetta var ekki auðvelt. Maður heyrir sögur af konum sem verða þreyttar, stressaðar og hreinlega veikar í upphafi meðgöngu. Ég þurfti að taka alla orku sem ég átti og nánast safna henni saman til þess að geta notað hana,“ sagði Serena, sem ætlaði aldrei að hætta við þátttöku.

„Ólétt eða ekki, enginn vissi þetta og fólk hélt því fram að ég ætti að vinna mótið. Alltaf þegar ég spila er búist við því að ég vinni – og ef ég tapa eru það venjulega enn stærri fréttir,“ sagði Serena, sem vann þar sinn 23. risatitil og hefur engin afrekað það síðan Opnu meistaramótin hófu göngu sína árið 1968.

Hún mun nú taka sér frí það sem eftir er árs, en segist ætla að koma ótrauð til baka á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert