Northug kom fyrstur í mark

Petter Northug kemur í mark í Fossavatnsgöngunni í dag.
Petter Northug kemur í mark í Fossavatnsgöngunni í dag. Ljósmynd/Albertína Elíasdóttir

Fyrstu keppendur í 50 kílómetra göngu í Fossavatnsgöngunni voru að koma í mark rétt í þessu. Fyrstur í mark á nýju brautarmeti var Petter Northug frá Noregi, en hann gekk á tímanum 02.19.43,5. Norski skíðagöngukappinn Runar Skaug Mathisen varð annar á tímanum 02.19.47,3. Þriðji og fyrstur Íslendinga var Snorri Einarsson á tímanum 02.22.16,9.

Keppendur í 50 kílómetra göngu Fossavatnsgöngunnar fóru af stað frá Seljalandsdal klukkan 09.00 í morgun í glampandi sól. Alls eru um 520 keppendur skráðir til leiks í þessum hluta göngunnar. Genginn er hinn hefðbundni 50 km hringur þar sem gengið er frá Seljalandsdal, upp á Hnífa, Botnsheiði og áfram yfir Fellsháls.

Þaðan er gengið niður að Nónvatni og áfram fyrir Engidal að svokölluðum Steini þar sem gangan er hálfnuð. Þar er snúið við og haldið til baka um Botnsheiði og fyrir Búrfell, þar sem við tekur nokkuð erfiður kafli upp á Miðfellsháls þaðan sem keppendur renna sér svo niður aftur á Seljalandsdal.

Brautin þykir nokkuð krefjandi en hæðarmunur er 324 metrar og lengsta samfellda klifur er 115 metra hækkun upp á fyrrnefndan Miðfellsháls eftir um 42 kílómetra göngu. Heildarklifur er um 1.250 metrar.

Í dag eru tæplega 520 keppendur á ráslista fyrir 50 km gönguna, sem er nýtt þátttökumet í Fossavatnsgöngunni, en alls eru um 1.200 keppendur sem taka þátt í öllum keppnisgreinum helgarinnar frá 25 þjóðlöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert