Ingibjörg í ansi góðum hópi

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, hefur undanfarin fjögur ár stundað nám í Arizona State University í Tempe í Bandaríkjunum, ásamt því að æfa og synda með háskólaliðinu þar. Hún kom heim og tók þátt á Íslandsmótinu í 50 metra laug í byrjun apríl og náði lágmörkum fyrir heimsmeistaramótið bæði í 50 metra skriðsundi og 50 metra baksundi. Mótið  fer fram í Ungverjalandi í lok júlí í sumar.  

Þegar Ingibjörg fór aftur út eftir þennan flotta árangur bauð Bob Bowman þjálfari hennar henni að koma með sér í æfingabúðir í USA Olympic training center í Colorado Springs. Einungis níu sundmönnum frá ASU var boðið að koma í æfingabúðirnar og var Ingibjörg ein af þeim. Auk hennar eru margir sundmenn sem hafa unnið til verðlauna á Ólympíuleikunum og er þetta því einstakt tækifæri fyrir hana. Flestir eru að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið núna í sumar. Bob var þjálfari bandaríska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrra og hefur hann þjálfað Michael Phelps frá því hann byrjaði að æfa.

Þessu gat Ingibjörg ekki hafnað en hún þurfti hins vegar að hætta við að gefa kost á sér fyrir Smáþjóðaleikana eins og hún ætlaði sér, en þeir verða í San Marínó um mánaðamótin. Á þeim tíma verður hún að keppa í San Francisco ásamt hópnum sem hún æfir nú með.  

Ingibjörg útskrifaðist frá ASU í byrjun maí, með BA-gráðu í business communication og mun hún flytja heim til Íslands í byrjun júlí og hefja mastersnám við stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert