Á skilið að halda áfram

Aaron Ramsey ásamt Theo Walcott í dag eftir sigurinn.
Aaron Ramsey ásamt Theo Walcott í dag eftir sigurinn. AFP

Hetja Arsenal-manna í dag, Aaron Ramsey, vill hafa Frakkann Arsene Wenger áfram við stjórnvölinn hjá félaginu á næsta ári.

Arsene Wenger hefur stýrt Arsenal í 20 ár og mikið hefur verið rætt um framtíð hans á tímabilinu sem er að ljúka.

Arsenal lék 19. tímabilið í röð í Meistaradeild Evrópu á nýafstöðnu tímabili en tókst ekki að komast í keppnina á því næsta sem kynti enn frekar undir óánægjuraddir stuðningsmanna liðsins.

13. bikarmeistaratitillinn gæti þó breytt einhverju um það en Arsenal hefur nú unnið bikarinn oftast allra liða. Manchester United hefur unnið 12 sinnum.

„Ég elska þessa keppni. Strákarnir eiga þetta skilið. Ég er ánægður fyrir hönd stjórans. Að ná einum titli enn er frábært,“ sagði Ramsey.

Spurður hvort hann vilji hafa Wenger áfram sagði Ramsey.

„Að sjálfsögðu vil ég hafa hann áfram. Hann á það skilið. Hann breytti um taktík og náði góðum árangri. Menn verða að vera sanngjarnir við hann. Hann breytti kerfinu. Vonandi verður hann hér á næstu leiktíð,“ sagði Ramsey.

Arsene Wenger lyftir enska bikarnum í dag.
Arsene Wenger lyftir enska bikarnum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert