Aníta og Ásdís í fararbroddi

Ásdís Hjálmsdóttir og Aníta Hinriksdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir og Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Andri Yrkill

Aníta Hinriksdóttir og Ásdís Hjálmsdóttir verða í fararbroddi hjá íslenska landsliðinu í frjálsíþróttum sem tekur þátt í 2. deild Evrópumóts landsliða í Tel Aviv í Ísrael um helgina.

Aníta setti á dögunum Íslandsmet í 800 m hlaupi kvenna, 2:00,05 mínútur, en hennar skæðasti keppinautur verður væntanlega Egle Balciunaite frá Litháen sem hefur hlaupið á 1:59,29 mín. en á best 2:02,07 í ár.

Ásdís sigraði í spjótkasti kvenna síðast þegar keppnin var haldin, í Búlgaríu árið 2015, og kastaði þá 60,06 metra. Í ár hefur hún kastað 61,02 metra.Að þessu sinni keppir hún m.a. við Ólympíumeistarann Söru Kolak frá Króatíu og Martinu Ratej frá Slóveníu sem báðar hafa kastað yfir 64 metra í ár.

Þá á Ásdís fimmta besta árangur þeirra sem keppa í kúluvarpi kvenna, 16,08 metra, og 15,39 í ár.

• Arna Stefanía Guðmundsdóttir á bestan árangur af þeim sem keppa í 400 m hlaupi kvenna, 56,08 sekúndur, og næstbestan á þessu ári.

• Hlynur Andrésson á besta tíma ársins af keppendum í 5.000 m hlaupi, 14:00,83 mínútur, og næstbesta frá upphafi.

• Hulda Þorsteinsdóttir á næstbesta árangur af þeim sem keppa í stangarstökki kvenna, 4,34 metra.

• Kolbeinn Höður Gunnarsson á þriðja besta tíma keppenda í 200 m hlaupi karla, 20,96 sekúndur.

Aðrir keppendur Íslands eru ekki líklegir til að slást um efstu sætin í sínum greinum miðað við stöðu keppenda í hverri grein fyrir sig.

Ísland hafnaði í sjötta sæti af átta liðum í síðustu keppni. Nú er liðum í 2. deild fjölgað úr átta í tólf. Lettland og Litháen féllu úr 1. deildinni, Króatía, Ungverjaland, Slóvenía, Serbía, Ísland og Kýpur eru áfram í 2. deild, og upp úr 3. deild koma Ísrael, Slóvakía, Austurríki og Moldóva.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert