Hákon og Ágústa Íslandsmeistarar

Íslandsmeistarar í tímatöku 2017. Hákon Hrafn Sigurðsson og Ágústa Edda …
Íslandsmeistarar í tímatöku 2017. Hákon Hrafn Sigurðsson og Ágústa Edda Björnsdóttir. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Íslandsmeistaramótið í tímatöku í hjólreiðum (e. time trial) fór fram í kvöld á Krýsuvíkurvegi við frábærar aðstæður, en bæði var þurrt og lítill vindur. Keppt var í þremur flokkum; karlaflokki, kvennaflokki og ungliðaflokki og var vegalengdin í öllum flokkum 20 kílómetrar.

Hjólað var frá gatnamótum Bláfjallavegar og Krýsuvíkurvegar upp veginn í suðurátt þar sem snúið var við og hjólað alla leið niður að hringtorginu sem tengist Vallahverfinu. Þar var aftur snúið við og hjólað á ný að efsta punkti og svo niður að gatnamótunum við Bláfjallaafleggjarann. 

Ágústa Edda Björnsdóttir í hjólreiðafélaginu Tindi var fljótust í kvennaflokki á tímanum 00:30:11, en hún var þremur sekúndum á undan Rannveigu Önnu Guicharnaud úr Breiðabliki sem var á 00:30:14. Í þriðja sæti var Margrét Pálsdóttir úr Breiðabliki á tímanum 00:30:42. Ágústa náði strax þriggja sekúndna forskoti við fyrsta millitíma og hélt því forskoti til loka.

Margét Pálsdóttir (3. sæti), Ágústa Edda Björnsdóttir (1. sæti) og …
Margét Pálsdóttir (3. sæti), Ágústa Edda Björnsdóttir (1. sæti) og Rannveig Anna Guicharnaud (2. sæti). mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Í karlaflokki sigraði Hákon Hrafn Sigurðsson úr Breiðabliki á 00:26:12. Í öðru sæti var Rúnar Örn Ágústsson einnig úr Breiðabliki á tímanum 00:26:28 og í þriðja sæti var Hafsteinn Ægir Geirsson úr HFR á 00:26:55. Hákon náði strax átta sekúndna forskoti á fyrsta millitíma og bætti við forskotið þegar á leið. Hafsteinn var hins vegar á betri millitíma en Rúnar, en á seinni hlutanum bætti Rúnar talsvert í og skóp þannig tæplega hálfrar mínútu forystu á Hafstein.

Rúnar Örn Ágústsson (2. sæti), Hákon Hrafn Sigurðsson (1. sæti) …
Rúnar Örn Ágústsson (2. sæti), Hákon Hrafn Sigurðsson (1. sæti) og Hafsteinn Ægir Geirsson (3. sæti). mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Í ungliðaflokki sigraði Sæmundur Guðmundsson úr HFR á tímanum 00:30:36 og var Gústaf Darrason úr Tindi í öðru sæti á 00:30:40. 

Í ungliðaflokki sigraði Sæmundur Guðmundsson (t.h.) úr HFR á tímanum …
Í ungliðaflokki sigraði Sæmundur Guðmundsson (t.h.) úr HFR á tímanum 00:30:36 og var Gústaf Darrason (t.v.) úr Tindi í öðru sæti á 00:30:40. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Tímataka fer fram þannig að einn og einn keppandi er ræstur í einu með mínútu millibili. Ekki er leyfilegt að nýta sér kjölsog annarra keppenda eins og í almennum götuhjólakeppnum. Mótið var haldið af hjólreiðafélaginu Bjarti.

Þrír efstu menn í karlaflokki í tímatöku að keppni lokinni. …
Þrír efstu menn í karlaflokki í tímatöku að keppni lokinni. Rúnar Örn Ágústsson, Hákon Hrafn Sigurðsson og Hafsteinn Ægir Geirsson. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert