Esja í Evrópukeppni

Esjumenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í vor.
Esjumenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í vor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland mun í fyrsta sinn í sögunni eiga fulltrúa í Evrópukeppni félagsliða í íshokkí í vetur þegar Íslandsmeistarar UMFK Esju taka þátt.

Esjumenn mæta til leiks á fyrsta stigi keppninnar og munu leika í fjögurra liða riðli í Belgrad í Serbíu. Þar mæta þeir heimamönnum í Rauðu stjörnunni, Zeytinburnu Istanbul frá Tyrklandi og búlgörsku meisturunum Irbis-Skate Sofia. Leikið verður dagana 29. september til 1. október.

Liðið sem vinnur þennan riðil kemst á næsta stig og leikur í riðli í Rúmeníu 20.-22. október. Þar leika einnig Jegesmedvek Miskolc frá Ungverjalandi, Corona Brasov frá Rúmeníu og Txuri Urdin San Sebastian frá Spáni. Sigurvegari þess riðils kemst á þriðja stig keppninnar þar sem leikið er í tveimur fjögurra liða riðlum. Tvö efstu lið hvors riðils komast áfram í úrslit keppninnar í janúar. Sigurvegari keppninnar getur svo fengið sæti í Meistaradeild Evrópu.

Aðeins þrjú ár eru síðan lið Esju var stofnað en það varð bæði deildar- og Íslandsmeistari í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert