Stöðnun í sumum greinum

Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar í langstökki hefur staðið í 23 …
Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar í langstökki hefur staðið í 23 ár. mbl.is/Ásdís

„Ég held að það verði að segjast að við gerðum ekki eins vel og maður vonaðist eftir,“ segir frjálsíþróttaþjálfarinn Gunnar Páll Jóakimsson í samtali við Morgunblaðið um árangur Íslands um helgina á Evrópubikarkeppni landsliða þar sem Ísland féll niður í 3. og neðstu deild.

Íslenska liðið hafnaði í 11. sæti af 12 þjóðum með 181,5 stig eftir 40 greinar í Tel Aviv í Ísrael og var 57 stigum á eftir næstu þjóð. Ísland vann til fernra verðlauna á mótinu; eitt gull, tvö silfur og eitt brons en þess má geta að gullverðlaun gáfu 12 stig.

Aðspurður hvort Ísland sé að sitja eftir í frjálsum íþróttum samanborið við önnur lönd Evrópu segir Gunnar það vera staðreynd á nokkrum sviðum og bendir meðal annars á stökkgreinar karla. Til glöggvunar hefur Íslandsmet Sigurðar T. Sigurðssonar, 5,31 metri, í stangarstökki staðið í 33 ár og 2,25 metra metstökk Einars Karls Hjartarsonar í hástökki var sett um aldamót. Jón Arnar Magnússon á 23 ára gamalt Íslandsmet í langstökki, 8 metra, og enginn hefur ógnað Vilhjálmi Einarssyni í þrístökki sem stökk 16,70 metra árið 1960.

„Það er slatti af greinum þar sem ekkert hefur verið að gerast og við erum að standa okkur verr en fyrir 10-20 árum. Í sumum greinum þar sem við erum aftarlega erum við samt með mjög efnilega krakka og maður sér að hlutirnir eru á réttri leið. En það er svolítið af greinum þar sem við höfum dregist aftur úr og við erum ekki með árangur á alþjóðamælikvarða nema í fáum tilvikum,“ segir Gunnar Páll.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert