Góður árangur hjá Guðlaugu í Þýskalandi

Guðlaug Edda Hannesdóttir og Sigurður Örn Ragnarsson.
Guðlaug Edda Hannesdóttir og Sigurður Örn Ragnarsson. Ljósmynd/Þríþrautasamband Íslands

Evrópumeistaramót í þríþraut fór fram síðustu helgi í Düsseldorf, Þýskalandi, þar sem keppt var í sprettþraut. Ísland átti í fyrsta skipti þátttakendur á mótinu en þau Guðlaug Edda Hannesdóttir og Sigurður Örn Ragnarsson voru bæði á ráslista. Ráslistinn var gríðarlega sterkur í karla- og kvennaflokki þar sem sterkasta þríþrautarfólk Evrópu var mætt til leiks.

Guðlaug Edda hóf fyrst leik og stakk sér til sunds. Hún kom önnur upp úr sjónum eftir 750 metra sund og lenti í fremsta hóp á hjólinu ásamt 20 öðrum konum. Eftir 20 kílómetra hjól var komið að 5 kílómetra hlaupi. Guðlaug, sem sigraði þríþrautarkeppni í dönsku meistaraseríunni fyrir mánuði, átti gott hlaup og hljóp á 18 mínútum. Hún kom í mark í 18 sæti, sem telst frábær árangur á Evrópumeistaramóti þar sem bestu þríþrautakonur Evrópu keppa. Næsta mót fram undan hjá þessari efnilegu þríþrautarkonu er Evrópubikarkeppni í Hollandi næstu helgi.

Næst var komið að Sigurði Erni. Hann byrjaði ágætlega í sundinu og kom upp úr vatninu í stórum hópi. Sigurður lenti því miður í slysi eftir tvo hringi af fjórum á hjólinu og varð því að draga sig úr keppni. Hann er ekki alvarlega slasaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert