Arna og Guðni elta HM-lágmörkin erlendis

Arna Stefanía Guðmundsdóttir
Arna Stefanía Guðmundsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Þau Arna Stefanía Guðmundsdóttir og Guðni Valur Guðnason stefna nú að því fullum fetum að ná lágmarki inn á heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum sem fram fer í London í næsta mánuði og eru bæði í eldlínunni erlendis. Lágmarkið þarf að vera í höfn á miðnætti næstkomandi sunnudag.

Guðni Valur keppti á fyrsta móti sínu af þremur í kringlukasti í Hollandi í gær, en hann þarf að kasta 65 metra til þess að vera öruggur inn á HM. Hann hefur best kastað 63,50 metra. Arna Stefanía keppir hins vegar í 400 metra grindahlaupi í Loughborough á Englandi á laugardag og þarf að vera undir 56,10 sekúndum. Hún hljóp á 56,37 sekúndum þegar hún vann brons á EM U23 ára um síðustu helgi.

„Ég hef engar áhyggjur af því að ná þessu ekki á laugardaginn, ég er full sjálfstrausts og er í flottu formi og hef náð að hvíla mig vel eftir mótið. Það er allt með mér,“ sagði Arna Stefanía við Morgunblaðið í gær, en auk þeirra mun Hilmar Örn Jónsson reyna við 76 metrana í sleggjukasti í mótum hér heima næstu daga. Hann hefur lengst kastað 72,39 metra í ár og var við 70 metrana á EM U23 í síðustu viku.

Arna Stefanía á best 56,08 sekúndur frá því í ágúst í fyrra og langtímamarkmið er að slá 17 ára gamalt Íslandsmet Guðrúnar Arnardóttur sem er 54,37 sekúndur. Arna segir að það gæti verið að hún muni dvelja að hluta til erlendis næsta vetur í undirbúningi sínum fyrir næsta stóra markmið sem eru Ólympíuleikarnir í Tókýó 2020. Myndi hún þá taka tarnir erlendis og hér heima og því ekki fara alveg út, en helst liggi fyrir að setja upp langtímaplan.

„Ég held að það myndi hjálpa mér að fá æfingafélaga; stelpur sem hlaupa svipað og jafnvel aðeins hraðar. Þótt maður flytti ekki endanlega út væri þetta bara gott og nokkuð sem ég mun skoða,“ sagði Arna Stefanía.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert