Skaðaði sjálfa sig vegna pressu í íþróttum

Wilson á fullri ferð í Sotsjí.
Wilson á fullri ferð í Sotsjí. Ljósmynd/Twitter

Rebekah Wilson, fyrrverandi bobbsleðakona frá Englandi, þurfti að hætta í íþróttinni þar sem hún réði ekki við pressuna sem fylgdi því að vera atvinnuíþróttamaður. Hún segir í viðtali við BBC að hún hafi skaðað sjálfa sig vegna pressu sem fylgdi stífum æfingum. 

Hún var aðeins 23 ára þegar hún hætti að keppa og í kjölfarið dvaldi hún á geðspítala í 18 mánuði á eftir. Wilson keppti m.a fyrir Bretland á Ólympíuleikunum í Sotsjí árið 2014. 

„Það er mikið meira um svona dæmi en fólk heldur," sagði hún í viðtali við BBC. „Allt sem þú gerðir var skoðað mjög ítarlega og þú þurftir að bæta þig ef þjálfararnir voru ekki sáttir. Þetta var mjög kalt umhverfi og þvert á móti því að vera vinalegt."

„Ég var aðeins 19 ára og þetta var of mikið fyrir mig. Í minni grein getur ferillinn þinn farið í vaskinn ef þú ert hundraðshluta of seinn. Ég réði ekki við þá pressu og ég fór að skaða mig. Ég byrjaði að skera mig á stöðum sem var auðvelt að fela með teipum, bæði hendur og fætur og ég fór að skalla veggi til að reyna að rota sjálfa mig til að losna við pressuna," sagði Wilson. 

Wilson líður nú betur og er hún farin að spila rúgbý og gerir hún það mest megnis sér til gamans. Hún vonast þó til að komast í breska landsliðið Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert