„Þetta er mikill heiður“

Hilmar Örn Jónsson.
Hilmar Örn Jónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hilmar Örn Jónsson úr FH var valinn til að keppa á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Lundúnum dagana 4.-13. ágúst.

Ísland hefur rétt á að senda einn karlkeppanda án lágmarks og hafði Hilmar betur í baráttunni við spjótkastarann Sindra Hrafn Guðmundsson og kringlukastarann Guðna Val Guðnason.

„Að fá þetta lausa sæti er auðvitað mikill heiður því að ég er valinn úr gríðarlega sterkum hópi frjálsíþróttamanna sem hafa verið að gera mjög góða hluti að undanförnu. Þar að auki er þetta mikil viðurkenning á því að ég hafi verið að standa mig vel undanfarið og að sambandið hafi tekið eftir því.“

Hilmar Örn bætti Íslandsmet sitt í sleggjukasti í flokki 20-22 ára pilta 7. júní síðastliðinn þegar hann keppti á bandaríska háskólameistaramótinu sem fram fór í Eugene, Oregon.

„Fram að móti stendur bara til að æfa vel, svo er bikarkeppni frjálsíþróttasambandsins í Kaplakrika á laugardaginn, frá 13-15 og ég hvet að sjálfsögðu alla til að mæta. Ég verð þar líklega bara sem áhorfandi því að það er ekki keppt í sleggjukasti í ár. Ég fer út sunnudaginn 6. ágúst og stefni á að taka eina æfingu eða svo þarna úti,“ segir Hilmar sem er aðeins 21 árs gamall.

Sjá allt viðtalið við Hilmar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert