„Frábært að sjá stelpur lyfta lóðum“

Fanney Hauksdóttir við athöfnina í dag.
Fanney Hauksdóttir við athöfnina í dag. mbl.is/Andri Yrkill

Í dag var haldin móttaka til heiðurs Fanneyju Hauksdóttur eftir að hún varð Evrópumeistari í bekkpressu í -63 kg flokki um síðustu helgi. Þetta var þriðji Evrópumeistaratitill Fanneyjar í röð og fjölmargir voru saman komnir til þess að fagna árangrinum.

„Þetta er ótrúlega gaman. Það er greinilega gott fólk í kringum mig sem hugsar fyrir svona hlutum, sem er náttúrulega bara æðislegt og gerir þetta allt enn þá betra. Ég bjóst reyndar ekki við þessu, ég sagði að fólk þyrfti ekkert að koma hingað fyrir mig en svo er bara kaka með nafninu mínu og allt,“ sagði Fanney glöð í bragði við mbl.is og blaðamaður getur vottað að kakan var ljúffeng.

Fanney finnur fyrir miklum áhuga á kraftlyftingum og lyftingum almennt og það er greinilega uppgangur í lyftingum hér á landi.

„Algjörlega, og mér finnst líka áhugi í samfélaginu fyrir því að lyfta lóðum almennt. Það er ótrúlega jákvætt að þetta sé vinsælt, og svo er þetta líka þannig sport að það geta allir tekið þátt. Þú þarft ekki að hafa verið í íþróttum frá unga aldri til þess að taka þátt, það geta allir verið með. Það er það sem er skemmtilegt. Það er frábært að sjá stelpur að lyfta lóðum, þetta er sko ekkert bara fyrir stráka,“ sagði Fanney Hauksdóttir.

Glæsileg kaka til heiðurs Evrópumeistaranum.
Glæsileg kaka til heiðurs Evrópumeistaranum. mbl.is/Andri Yrkill

„Fanney er gríðarleg fyrirmynd“

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, formaður Kraftlyftingasambands Íslands, hélt tölu á samkomunni og kom þá inn á glæsilegan árangur íslenskra keppenda á árinu. Hún segir að margir líti upp til Fanneyjar.

„Fanney er gríðarleg fyrirmynd fyrir kraftlyftingafólk og ég held að það séu margar konur sem sjá hana og átta sig á því að það þarf ekki að vera voða stór og mikill til þess að ná árangri. Maður þarf bara að vera sterkur og hún sýnir að þetta er hægt,“ sagði Hulda við mbl.is.

Við sama tilefni var Kraftlyftingasambandinu veitt aukafjárveiting frá ÍSÍ vegna landsliðsverkefna á árinu og nemur upphæðin 6 milljónum til viðbótar við þær rúmu 6 milljónir sem sambandið fékk úr Afrekssjóði fyrr á árinu. Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, skrifaði undir samninginn og Hulda segir framlagið skipta miklu máli.

„Þessi aukafjárveiting skiptir okkur gríðarlega miklu máli og er 100% viðbót við það sem við höfum fengið áður. Þetta þýðir að það verða breytingar á starfsemi sambandsins þar sem við getum styrkt fólk sem við höfum ekki getað styrkt áður og einnig styrkt innviði sambandsins, til dæmis með ráðningu íþróttastjóra,“ sagði Hulda við mbl.is.

Skrifað undir samning um aukafjárveitingu frá ÍSÍ til Kraftlyftingasambandsins.
Skrifað undir samning um aukafjárveitingu frá ÍSÍ til Kraftlyftingasambandsins. mbl.is/Andri Yrkill
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert