Viktor og Elín sterkust

Viktor Samúelsson.
Viktor Samúelsson. Ljósmynd/Facebook-síða Viktors Samúelssonar

Viktor Samúelsson og Elín Melgar Aðalheiðardóttir urðu stigahæst á bikarmótinu í klassískum kraftlyftingum, sem fór fram í World Class Kringlunni í gærkvöldi.

Viktor, sem er í Kraftlyftingafélagi Akureyrar, varð stigahæstur karla með 449,51 Wilksstig. Hann vann auk þess í -120 kg flokki með 780 kg í samanlögðum árangri; 280 kg í hnébeygju,  200 kg í bekkpressu og 300 kg í réttstöðulyftu. Viktor varð einnig stigahæstur karla í bekkpressu með 115,25 Wilksstig og í réttstöðulyftu með 172,89 Wilksstig.

Elín Melgar Aðalheiðardóttir.
Elín Melgar Aðalheiðardóttir. Ljósmynd/Rósa Braga

Elín, sem er í Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur, varð stigahæst kvenna með 393,30 Wilksstig. Auk þess vann hún í -63 kg flokki með 360 kg í samanlögðum árangri, sem er jöfnun á núgildandi Íslandsmeti; Hún bætti Íslandsmetið í hnébeygju með 135 kg, tók 90 kg í bekkpressu og 135 kg í réttstöðulyftu. Elín varð einnig stigahæst kvenna í bekkpressu með 98,32 Wilksstig.

Einar Örn Guðnason, Kraftlyftingafélagi Akraness, varð stigahæstur í hnébeygju karla með 162,0 Wilksstig, en hann lyfti 270 kg í -105 kg flokki. Ellen Ýr Jónsdóttir Breiðabliki varð stigahæst í hnébeygju kvenna með 153,70 Wilksstig, en hún setti þar nýtt Íslandsmet í -84 kg flokki með 170,5 kg lyftu.

Stigahæsta lið kvenna varð Kraftlyftingafélag Reykjavíkur með 41 stig. Stigahæsta lið karla varð Kraftlyftingafélag Akureyrar með 56 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert