Bjarki berst við fyrrverandi andstæðing Conor

Bjarki Þór Pálsson mætir O'Keeffe í desember.
Bjarki Þór Pálsson mætir O'Keeffe í desember. Ljósmynd/Fight Star

Hinn 7. október síðastliðinn vann Bjarki Þór Pálsson atvinnubardagamaður Evrópumeistaratitil FightStar-sambandsins í léttvigt í blönduðum bardagalistum. Bardagann vann hann með samróma dómaraákvörðun eftir að hafa haft algjöra yfirburði gegn andstæðingi sínum Quamer Hussain.

Bjarki kom algjörlega óskaddaður út úr þeim bardaga og gerði mótshöldurum þegar í stað ljóst að hann vildi berjast aftur áður en árið væri liðið og það á móti einhverjum hátt skrifuðum. Óskum hans var svarað og nú hefur fyrsta titilvörnin hans verið staðfest 9. desember gegn mjög öflugum andstæðingi, hinum 31 árs gamla Steve O´Keeffe sem hefur verið í bardagabransanum í talsverðan tíma.

Á ferilskrá hans eru meðal annars bardagar gegn Íslandsvinunum Conor McGregor sem hann tapaði gegn og Artem Lobov sem hann sigraði. O´Keeffe er alhliða sterkur bardagamaður með svört belti í Brasilísku Jiu Jitsu og Tae Kwon Do, svo er hann með brúnt belti í Judo og með reynslu úr ýmsum öðrum bardagaíþróttum. Það er því öruggt að þetta er langöflugasti andstæðingur sem Bjarki Þór hefur mætt til þessa. 

Fann hvað ég var mikið betri

„Beltinu fylgir sviðsljós. Þeir bestu girnast það og fyrir vikið var hægt að fá andstæðing eins og Steve O´Keeffe til að fallast á að berjast við mig. Ég er gríðarlega ánægður með að fá bardaga strax aftur og það á móti andstæðingi eins og honum. Þetta er mitt tækifæri til að sýna stóru samböndunum úr hverju ég er gerður og með öruggum sigri þá tek ég af allan vafa um það að ég eigi heima hjá UFC eða Bellator. Ég fann það mjög þétt gegn Quamer Hussain í seinasta bardaga hvað ég var mikið betri en hann að öllu leyti. Sá bardagi reyndi einfaldlega ekki nógu mikið á mig. Ég vil þurfa að hafa meira fyrir þessu og nú hefur bænum mínum verið svarað,“ segir Bjarki um bardagann. 

„Ég hef lengi vitað af Steve O´Keeffe. Hann er einn af þeim hæst skrifuðu sem eru að berjast utan stóru sambandanna. Hann hefur barist við virkilega öfluga bardagamenn. Þar á meðal þá Conor og Artem, sem ég hef æft með og þekki nokkuð vel. Hann var að opna sinn eigin klúbb og einbeita sér að þjálfun og tók sér hlé frá keppni á meðan. Þess vegna hefur maður ekkert mikið heyrt hann nefndan síðastliðin 2-3 árin. Hann snéri svo aftur fyrr á þessu ári í bardaga hja Cage Warriors og kláraði andstæðing sinn í fyrstu lotu þannig að það er klárt að hann er í góðu formi og mun mæta með einbeittan vilja til að hirða af mér beltið.”

Bjarki Þór hefur í talsverðan tíma verið sá íslenski bardagamaður sem spekingar hafa spáð að sé næstur til að festa sig í sessi í fremstu röð. Hann er enn ósigraður sem atvinnumaður og hyggst halda því þannig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert