KA og Þróttur Nes á toppinn fyrir jólafrí

Þróttur Neskaupsstað er í efsta sæti í kvennaflokki.
Þróttur Neskaupsstað er í efsta sæti í kvennaflokki. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Karlalið KA í blaki og kvennalið Þróttar frá Neskaupstað eru í efstu sætum Mizuno-deildanna yfir jólahátíðina.

Karlalið HK og KA mættust tvívegis um helgina í sannkölluðum toppslag. Á laugardaginn hafði HK betur í hörkuspennandi leik þar sem oddahrinu þurfti til. HK hafði þar betur 15:11. Eftir þennan sigur var HK komið í efsta sæti deildarinnar með 18 stig eftir átta leiki en KA með 16 í öðru sæti.

Heimamenn í Kópavoginum höfðu betur í fyrstu hrinu 25:18 en KA svaraði með 25:22 sigri í þeirri næstu og 25:19 sigri í þeirri þriðju og því voru norðanmenn komnir í vænlega stöðu. Heimamenn gáfust þó ekki upp og mikil spenna var í fjórðu hrinu þar sem HK hafði þó betur í lokin, 25:22 og því varð að leika oddahrinu þar sem HK hafði betur eins og áður segir.

Stigahæstur í leiknum var Gary House hjá HK með 31 stig og Quentin Moore hjá KA var með 27 stig.

Síðari viðureign liðanna var síðan í gær og þá höfðu norðanmenn betur 3:1 og tylltu sér á toppinn.

KA mætti af krafti til leiks og vann fyrstu hrinuna 25:21. HK jafnaði með 25:23 sigri í þeirri næstu og þriðja hrinan var ekki síður jöfn og spennandi en þar hafði KA betur 26:24. KA komst síðan í 18:10 í fjórðu hrinu, en HK gafst ekki upp og náði að laga stöðuna, en komst þó aldrei yfir. KA vann 25:21.

KA fer því í jólafrí með 19 stig eftir átta leiki en HK fellur niður í annað sætið með 18 stig eftir níu leiki.

Sömu menn voru stigahæstir í þessum leik eins og þeim fyrri, Moore með 37 stig og House með 27.

Norðfirðingar voru í heimsókn á laugardaginn hjá Völsungum á Húsavík og var strax í upphafi leiks ljóst í hvað stefndi því gestirnir voru staðráðnir í að komast í efsta sæti deildarinnar fyrir jól.

Þróttarar höfðu betur í leiknum, 3:0 þar sem hrinurnar enduðu 25:17, 25:18 og 25:21.

Með sigrinum skaust Þróttur upp fyrir Aftureldingu í toppsætið. Norðfirðingar eru með 21 stig eftir átta leiki en Afturelding með stigi minna, eða 20 stig eftir jafn marga leiki. Völsungar eru sem fyrr í fimmta sæti með fimm stig eftir sjö leiki. skuli@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert