Helgi og Thelma Björg íþróttafólk ársins

Thelma Björg Björnsdóttir og Helgi Sveinsson með verðlaunin í hófinu …
Thelma Björg Björnsdóttir og Helgi Sveinsson með verðlaunin í hófinu í dag. mbl.is/Eggert

Spjótkastarinn Helgi Sveinsson og sundkonan Thelma Björg Björnsdóttir voru í dag útnefnd íþróttafólk ársins úr röðum fatlaðra við hátíðlega athöfn á Hótel Sögu.

Helgi og Thelma hafa nú hlotið þessa nafnbót fjórum sinnum hvort um sig. Helgi, sem keppir fyrir Ármann, setti á þessu ári nýtt og glæsilegt heimsmet í spjótkasti í flokki F42 þegar hann kastaði 59,77 metra á móti á Ítalíu. Hann vann svo til silfurverðlauna á heimsmeistaramótinu í London þar sem hann kastaði 56,74 metra.

Thelma Björg er nýkomin heim frá Mexíkó þar sem hún vann til bronsverðlauna í 100 metra bringusundi á HM. Hún setti 23 ný Íslandsmet á árinu og tvö heimsmet í 25 metra laug, í 800 metra skriðsundi og 200 metra baksundi.

Þá voru afhent Hvataverðlaun Íþróttasambands fatlaðra. Þau hlaut að þessu sinni Guðmundur Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Íslensku alparnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert