Ekki gefið að ná þremur Íslandsmetum í röð í miðjum prófum

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. Haraldur Jónasson / Hari

Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir náði frábærum árangri og hafnaði í 5. sæti í 50 metra bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug sem haldið er í Royal Arena í Kaupmannahöfn. Hún jafnaði Íslandsmet sitt frá því fyrr í dag og synti á 30,03 sekúndum í úrslitasundinu en hún hafði áður tvíbætt metið í undanrásunum og undanúrslitunum.

„Ég er rosalega ánægð. Að komast í úrslit á Evrópumeistaramótinu er ekki gefið. Þrjú Íslandsmet í röð. Það er heldur ekki gefið! Þannig að ég er mjög ánægð með þetta,“ sagði Hrafnhildur við blaðamann mbl.is rétt eftir sundið.

„Ég er ekki beint svekkt með þetta en ég vildi komast undir 30. Ég var svo nálægt því!“ sagði Hrafnhildur sem er heldur betur búin að stimpla sig inn sem ein af þeim bestu í greininni.

„En fimmta í Evrópu, á móti svona rosalega sterkum stelpum er ég rosalega ánægð með. Ekki það að ég sé að gera lítið úr sjálfri mér en ég hef alltaf verið svona lélegri í stuttu lauginni þar sem snúningarnir hafa alltaf verið veikleiki hjá mér. Ég er rosalega ánægð með þetta,“ sagði Hrafnhildur en hún vann eins og frægt er orðið til tveggja silfurverðlauna og eins brons á EM í fyrra í 50 metra laug og komst auk þess í úrslit á Ólympíuleikunum í Ríó.

Hrafnhildur er í miðjum prófum og heldur heim strax á morgun og mun væntanlega lesa í fluginu á leið heim en hún fer í próf á föstudag í Háskóla Íslands.

Hrafnhildur bætti Íslandsmet sitt í 50 metra bringusundi í nóvember á Íslandsmótinu er hún synti á 30,42. Í dag þríbætti hún svo metið. Fyrst í undanrásunum í morgun er hún synti á 30,20. Hún bætti svo um betur í undanúrslitunum er hún synti á 30,03 þar sem hún var sjötta inn af átta. Hún synti svo á sama tíma í úrslitasundinu og endaði í 5. sæti.

Nánar er rætt við Hrafnhildi í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert