Glæsilegt Íslandsmet Hrafnhildar á EM

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is/Hari

Hrafnhildur Lúthersdóttir er komin í undanúrslitin í 50 metra bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug sem hófst í Kaupmannahöfn í morgun og setti glæsilegt Íslandsmet.

Hrafnhildur synti í fimmta og síðasta riðlinum í undanrásunum sem var að ljúka rétt í þessu. Hún varð þar í þriðja sæti á nýju Íslandsmeti, 30,20 sekúndum, en fyrra metið sem hún setti í síðasta mánuði var 30,42 sekúndur.

Hrafnhildur fékk sjöunda besta tímann í undanrásunum og komst auðveldlega í undanúrslitin sem hefjast klukkan 16 í dag en þangað komust sextán bestu úr undanrásunum.

Ida Hulkko og Jenna Laukkanen frá Finnlandi náðu bestu tímunum í greininni, syntu á 29,85 og 29,93 sekúndum, og Ruta Meilutyte frá Litháen varð þriðja á 30,03 sekúndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert