Simone Biles: Nassar misnotaði mig

Simone Biles.
Simone Biles. AFP

Bandaríska fimleikakonan Simone Biles, margfaldur gullverðlaunahafi á Ólympíuleikunum, segir að hún hafi verið kynferðislega misnotuð af Larry Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska fimleikalandsliðsins.

„Ég er líka ein af þeim sem lifði það af að vera kynferðislega misnotuð af Larry Nassar,“ segir í yfirlýsingu frá Biles í kvöld sem hún birti á Twitter undir myllumerkinu #metoo og bætist hún við þann gríðarlega fjölda kvenna hefur stigið fram og greint frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

Biles var ein skærasta stjarna Ólympíuleikanna í Ríó og vann þar fern gullverðlaun og ein bronsverðlaun.

Nassar var dæmdur í 60 ára fangelsi í desember á síðasta ári fyrir vörslu barnakláms en hann gekkst einnig við því að hafa misnotað fimleikastúlkur.

Þrír bandarískir ólympíufarar hafa sakað Nassar um kynferðislega misnotkun sem átti sér stað þegar þær voru í meðhöndlun hjá Nassar en þar á meðal er gullverðlaunahafinn Gabby Douglas. 

Dæmt verður í tveimur málum hins 54 ára gamla Nassar í mánuðinum þar sem hann hefur þegað játað að hafa misnotað bandarískar fimleikastúlkur.

„Flest ykkar sem þekkið mig vita að ég er lífsglöð, brosmild og orkumikil stelpa. En undanfarið hefur eitthvað verið að. Því meira sem ég reyni að loka á röddina í höfðinu á mér því hærri verður hún. Ég er ekki lengur hrædd við það að segja mína sögu,“ sagði Biles enn fremur.

„Það er ótrúlega erfitt að þurfa að endurlifa þessa reynslu. Ég er harmi sleginn yfir því að hugsa til þess að á meðan ég vinn að þeim draumi mínum að keppa í Tókíó 2020 þá þurfi ég að fara í sömu æfingaaðstöðu og þar sem ég var misnotuð,“ sagði Biles.

„Ég er einstök, klár, hæfileikarík, metnarðargjörn og ástríðufull. Ég er búin að lofa sjálfri mér því að saga mín verði ríkari en þetta. Ég lofa ykkur öllum að ég mun aldrei gefast upp,“ sagði Biles.

Nassar hóf störf hjá bandaríska fimleikasambandinu á 9. áratug síðustu aldar en var rekinn úr starfi í júlí 2015. Meira en 130 konur hafa kært hann og sakað um misnotkun. Á meðal þeirra sem stigið hafa fram eru Aly Raisman og McKayla Maroney, fyrrverandi gullverðlaunahafar á Ólympíuleikum.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert