Einherjar fá heimsókn frá Austurríki

Einherjar eru eina íslenska ruðningsfélagið.
Einherjar eru eina íslenska ruðningsfélagið. Ljósmynd/Einherjar

Þann 10. febrúar næstkomandi munu Einherjar, eina íslenska ruðningsliðið, (amerískur fótbolti) mæta austurríska liðinu Carinthean Lions í Kórnum. Ljónin leika í næstefstudeild í Austurríki.

Þetta er sjötti leikur Einherja sem hafa unnið fimm leiki og tapað tveimur til þessa. Allir leikirnir hafa farið fram í Egilshöll og félög frá Noregi, Þýskalandi, Englandi og Spáni hafa heimsótt Ísland til að leika við liðið. 

„Við erum í stanslausri baráttu við að sanna okkur í Evrópu og fá aðgengi í Evrópudeild. Við viljum hætta að spila vináttuleiki og spila í alvöru deild. Velgengni okkar hefur vakið mikla athygli í Evrópu," segir Bergþór Pálsson, leikmaður Einherja um leikinn. 

„Nú er stefnan að spila á móti sterkari liðum og við höfum ráðið til starfa Mark Reeve frá Texas. Hann hefur þjálfað í menntaskólum í Bandaríkjunum og verið aðstoðarþjálfari í stórum háskólum. Við verðum að vinna þennan leik og halda áfram að vinna til að komast inn í Evrópudeild," bætti hann við, en frítt er á leikinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert