Tiana sló Íslandsmetið í 60 m hlaupi

Tiana Ósk Whitworth er sprettharðasta kona landsins.
Tiana Ósk Whitworth er sprettharðasta kona landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tiana Ósk Whitworth náði frábærum árangri í 60 metra hlaupi kvenna á Stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum í Laugardalshöllinni í dag. Hún hljóp á 7,47 sekúndum, tók gullið og bætti Íslandsmetið í greininni í leiðinni en hún er aðeins 17 ára gömul. Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir átti gamla metið, 7,50 sekúndur, en hún varð önnur í dag á 7,66 sekúndum.

Í 400 metra hlaupi kvenna kom Þórdís Eva Steinsdóttir fyrst í mark á 56,26 sekúndum. Rebekka Fuglø frá Færeyjum vann 1.500 metra hlaupið á 4:49,91 mínútum og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir stökk 1,71 metra í hástökki, sem er mótsmet.

Guðmundur Ágúst Thoroddsen kom fyrstur í mark í 60 metra hlaupi karla. Hann hljóp á 7,07 sekúndum. Tórur Mortensen frá Færeyjum hafnaði í 2. sæti á 7,09 sekúndum. Ívar Kristinn Jasonarson vann 400 metra hlaupið á 48,89 sekúndum og Bjartmar Örnuson 1.500 metra hlaupið á 4:00,46 mínútum.

Kristinn Torfason var með yfirburði í bæði langstökki og þrístökki. Hann stökk 7,55 metra í langstökki og 13,61 metra í þrístökkinu. Kristján Viktor Kristinsson varpaði kúlu lengst 15,67 metra og tók gullið. Seinni dagur mótsins fer fram á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert