Tiana Ósk fimmta best í heiminum

Tiana Ósk Whitworth og María Rún Gunnlaugsdóttir á fullri ferð …
Tiana Ósk Whitworth og María Rún Gunnlaugsdóttir á fullri ferð um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árangurinn sem Tiana Ósk Whitworth, frjálsíþróttakonan efnilega úr ÍR, náði í 60 metra hlaupi innanhúss á Stórmóti ÍR í Laugardalshöllinni um helgina er svo sannarlega á heimsmælikvarða. Þar sigraði hún á 7,47 sekúndum og setti nýtt Íslandsmet fullorðinna.

Áður hafði Tiana best hlaupið á 7,59 sekúndum og Íslandsmetið sem Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir átti var 7,50 sekúndur. Tiana Ósk er á átjánda aldursári og enn gjaldgeng í flokki U18 ára. Á afrekslista á vef Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF, má sjá að einungis fjórar stúlkur í hennar aldursflokki hafa náð betri tíma í vetur.

N'Ketia Seedo frá Hollandi á besta tímann, 7,35 sekúndur. Hún er með þeim árangri í 41. sæti í heiminum í vetur í flokki fullorðinna og er þriðja best í flokki U20 ára.

Pia Skrzyszowska frá Póllandi hefur hlaupið á 7,43 sekúndum, Thelma Davies frá Bandaríkjunum á 7,45 og Semira Killebrew frá Bandaríkjunum á 7,46 en aðrar hafa ekki gert betur en Tiana Ósk í vetur.

Hún er því um leið með þriðja besta tíma vetrarins í Evrópu í flokki U18 ára. Í flokki U20 ára er Tiana Ósk í 18. sæti, miðað við þann árangur sem skráður hafði verið í gær á vef IAAF. Þess ber að geta að árangur Tiönu var ekki kominn á umrædda lista og rétt að taka fram að ekki er langt liðið af innanhústímabilinu enn sem komið er.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert