Norðmaðurinn fljótastur á nýju meti

Håvard Holmefjord Lorentzen fagnar sigri sínum í dag.
Håvard Holmefjord Lorentzen fagnar sigri sínum í dag. AFP

Norðmaðurinn Håvard Holmefjord Lorentzen hrósaði sigri í 500 metra skautahlaupi á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kór­eu í dag.

Lorentzen tryggði Norðmönnum gullið í þessari grein í fyrsta sinn í 70 ár en hann setti nýtt ólympíumet þegar hann kom í mark á 34,31 sekúndu. Þetta voru um leið fyrstu gullverðlaun Norðmanna í skautagrein frá árinu 1998 en þá varð Ådne Søndrål ólympíumeistari í 1.500 metra skautahlaupi í Nagano.

Suður-Kóreumaðurinn Cha Min Kyu varð annar, 1/100 hluta úr sekúndu á eftir Norðmanninum, og í þriðja sætinu hafnaði Kínverjinn Gao Tingyu.

Þetta voru 10. gullverðlaun Norðmanna á Vetrarólympíuleikunum og 27. verðlaun þeirra á leikunum en engin þjóð hefur unnið til fleiri verðlauna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert