Glæsilegur gulldans (myndskeið)

Tessa Virtue og Scott Moir fagna í nótt.
Tessa Virtue og Scott Moir fagna í nótt. AFP


Tessa Virtue og Scott Moir frá Kanada tryggðu sér gullið í ísdansi para með frjálsri aðferð á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kór­eu í nótt.

Það leit allt út fyrir að Virtue og Moir, sem urðu ólympíumeistarar í Vancouver 2010, yrðu að stefna á silfurverðlaunin eftir að franska parið Gabriella Papadakis og Guillaume Cizeron hafði stolið senunni á ísnum með frammistöðu sinni.

En Virtue og Moir, sem voru síðust inn á skautasvellið, áttu dans lífs síns og skutust frammúr Frökkunum. Kanadíska parið fékk samtals 206.06 stig en Frakkarnir 205.28. Bronsverðlaunin féllu bandarísku systkinunum Maia og Alex Shibutani í skaut.

Þetta voru fimmtu verðlaun Virtue og Moir á Vetrarólympíuleikum.

Cassie Sharpe fagnar sigri sínum.
Cassie Sharpe fagnar sigri sínum. AFP

Kanadamenn unnu einnig til gullverðlauna í hálfpípu kvenna í skíðafimi. Cassie Sharpe hrósaði sigri og hafði þar betur í baráttunni gegn Marie Martinod frá Frakklandi sem vann til silfurverðlauna eins og á Vetrarólympíuleikunum í Sochi fyrir fjórum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert