„Draumur minn rættist“

Lindsey Vonn felldi tár á verðlaunapallinum.
Lindsey Vonn felldi tár á verðlaunapallinum. AFP

Bandaríska skíðadrottningin Lindsey Vonn felldi tár þegar hún tók á móti bronsverðlaunum sínum fyrir brun kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kór­eu.

Vonn, sem missti af Vetrarólympíuleikunum í Sochi fyrir fjórum árum vegna meiðsla, sagði eftir brunkeppnina að laskaður líkami hennar myndi ekki gera henni kleift að keppa á næstu Vetrarólympíuleikum sem fram fara í Peking eftir fjögur ár en Vonn tók þátt í sínum fyrstu leikum 17 ára gömul í Salt Lake City árið 2002. Vonn missti af leikunum í Torinó fjórum árum síðar en í Vancouver 2010 vann hún gullverðlaunin í risavigi og í bruni.

Silfurverðlaunahafinn Ragnhild Mowinckel, ólympíumeistarinn Sofia Goggia og Lindsey Vonn á …
Silfurverðlaunahafinn Ragnhild Mowinckel, ólympíumeistarinn Sofia Goggia og Lindsey Vonn á verðlaunapallinum. AFP

„Ef þú hugsar um það hvað hefur gerst hjá mér síðustu átta árum og hvað ég hef þurft að ganga í gegnum til að komast hingað þá rættist draumur minn að vinna til verðlauna. Að sjálfsögðu hefði ég innilega viljað fá gullverðlaunin en þetta var frábært ég er svo stolt,“ sagði Vonn sem hefur lent í nokkrum alvarlegum hnémeiðslum á ferli sínum.

„Ég á eftir að sakna Ólympíuleikanna og það var ein ástæða þess að þetta var svo tilfinningarlegt fyrir mig í dag. Ég elska að keppa á Ólympíuleikum. Ég vildi óska þess að ég gæti haldið áfram á skíðunum og ég vildi óska að líkami minn hafði ekki laskast svona mikið eins og raun ber vitni,“ sagði Vonn, sem er elsta konan sem vinnur til verðlauna á Vetrarólympíuleikum í alpagreinum. Hún varð í 6. sæti í risaviginu um síðustu helgi. Á morgun keppir hún í alpatvíkeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert