Óvænt úrslit í svigi karla

Andre Myhrer fagnar sigri sínum.
Andre Myhrer fagnar sigri sínum. AFP

Svíinn Andre Myhrer vann í nótt óvæntan sigur í svigi karla á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu. Sturla Snær Snorrason átti að keppa í sviginu en vegna meiðsla gat hann ekki keppt eins og áður hefur komið fram á mbl.is.

Ramon Zenhaeusern frá Sviss vann til silfurverðlauna en hann varð 0,34 sekúndum á eftir Myhrer og Austurríkismaðurinn Michael Matt hreppti bronsverðlaunin en hann var 0,67 sekúndum á eftir Svíanum.

Myhrer, sem er 35 ára gamall, fylgir þar með í fótspor sænsku goðsagnarinnar Ingimars Stenmarks en hann er annar Svíinn til að vinna gull í alpagreinum á Vetrarólympíuleikum. Þetta voru önnur ólympíuverðlaun Myhrer en hann vann til bronsverðlauna í svigi í Vancouver árið 2010. Myhrer er elsti maðurinn til þess að vinna gullverðlaun í svigi á Vetrarólympíuleikum frá upphafi.

Austurríkismaðurinn Marcel Hirscher, sem flestir höfðu spáð sigri, féll í fyrri ferðinni og Norðmaðurinn Henrik Kristoffersen, sem var með forystuna eftir fyrri ferðina, náði ekki að ljúka síðari ferðinni. Myhrer var með annan besta tíma eftir fyrri ferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert