Betra útlit hjá Ými Erni

Ýmir Örn Gíslason
Ýmir Örn Gíslason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, tjáði Morgunblaðinu í gær að hann væri bjartsýnn á að meiðslin sem hann varð fyrir mundu ekki halda honum jafn lengi frá og talið var.

Staðfest var að Ýmir er með beinmar í hné eftir samstuð sem hann lenti í á æfingu hjá Val, þremur dögum fyrir leik Vals og Selfoss, seint í janúar.

„Ég fór í læknisskoðun á þriðjudaginn og útlitið virðist vera mjög gott. Enda hef ég getað hlaupið síðustu daga án þess að vera með verki. Þetta gengur því furðu vel þar sem um var að ræða töluvert beinmar. Batinn kom mér alla vega á óvart því fyrst var óttast að ég gæti þurft að vera þrjá til fjóra mánuði frá. En við förum þó rólega í þetta,“ sagði Ýmir og segist ætla að bera undir sjúkrateymi Vals hvort óhætt sé hjá honum að hefja æfingar með liðinu á næstu dögum.

„Líklega þarf ég að láta reyna meira á þetta. Ég hljóp ekkert í tvær og hálfa viku eða svo en ég vona að þetta sé allt að koma,“ sagði Ýmir í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert