HK lagði Húsvíkinga

Matthildur Einarsdóttir og samherjar í HK unnu Völsung í kvöld.
Matthildur Einarsdóttir og samherjar í HK unnu Völsung í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

HK sigraði Völsung, 3:0, í kvöld þegar liðin mættust í Fagralundi í Kópavogi í fyrsta leik sínum í 2. umferð úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki.

Liðin enduðu í fjórða og fimmta sæti Mizuno-deildarinnar og spila um að komast í undanúrslitin en þangað fara beint tvö efstu liðin, Þróttur frá Neskaupstað og Afturelding.

HK vann hrinurnar 25:18, 25:15 og 25:21. Húsvíkingar voru yfir lengi vel í þriðju hrinu en HK-konur sneru því smám saman sér í hag.

Hjördís Eiríksdóttir var með 15 stig fyrir HK, Matthildur Einarsdóttir og Hanna María Friðriksdóttir 9 hvor. Sladjana Smiljanic var með 8 stig fyrir Völsung og Arna Védís Bjarnadóttir 7.

Stjarnan og KA mætast líka í annarri umferð og fyrsti leikur þeirra  fer fram á Álftanesi annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert