Þrjú á HM í hálfmaraþoni

Arnar Pétursson verður á meðal keppenda á HM.
Arnar Pétursson verður á meðal keppenda á HM. mbl.is/Árni Sæberg

Þrír íslenskir hlauparar verða meðal keppenda á heimsmeistaramótinu í hálfmaraþoni sem fram fer í Valencia á Spáni á laugardaginn. Þetta eru þau Andrea Kolbeinsdóttir, Elín Edda Sigurðardóttir og Arnar Pétursson, öll úr ÍR.

Þetta verður í þriðja sinn sem Arnar tekur þátt í mótinu en hann hljóp í Cardiff fyrir tveimur árum, þar sem hann varð í 67. sæti á sínum besta tíma eða 1:08,02 klukkustund, og í Kaupmannahöfn árið 2014. Um frumraun er að ræða hjá hinni 19 ára gömlu Andreu og læknanemanum Elínu Eddu, en þrátt fyrir stuttan feril varð sú síðarnefnda Íslandsmeistari í hálfmaraþoni síðasta sumar þegar hún hljóp hraðast í Reykjavíkurmaraþoninu.

Tímasetning hlaupsins í Valencia á laugardag er nokkuð óvenjuleg þar sem hlaupið verður að kvöldi til, en ekki í morgunsárið. Konurnar hlaupa af stað klukkan 17.05 að staðartíma en karlarnir tæpum hálftíma síðar. Búist er við að yfir 300 hlauparar frá 87 löndum taki þátt í mótinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert