Ég á ekki til orð

Þróttur Neskaupstað er Íslandsmeistari 2018.
Þróttur Neskaupstað er Íslandsmeistari 2018. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Spánverjinn Paula Del Olmo var stigahæst Þróttar með 15 stig þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna með 3:0 sigri á Aftureldingu í Neskaupstað. Paula sagði titilinn endurspegla stemminguna í liði Þróttar og hlýjuna í bænum.

„Ég á ekki orð. Ég er virkilega ánægð, ekki bara því við unnum heldur við elskum hverjar aðra, styðjum hverja aðra og skemmtum okkur saman utan vallar. Ég held að það sjáist á liðinu.

Ég er ánægð með eigin árangur en líka ánægð fyrir hönd stelpanna, ég held þær muni aldrei gleyma þessu. Það er einstakt að vinna þrjá titla, það er aldrei hægt að ganga að neinum þeirra sem vísum.

Ég er fullkomlega ánægð, ekki bara af því ég hef unnið þessa titla heldur því ég er hér. Fólkið er yndislegt og mér líður eins og heima hjá mér. Þessi titilinn er fyrir fólkið í bænum því það verðskuldar hann.“

Paula hefur verið lykilmaður í liði Þróttar á sínu fyrsta tímabili með liðinu. „Ég vissi ekkert hverju ég átti von á þegar ég kom hingað, hvernig blakið væri og hin liðin. Við mættum Aftureldingu ekki fyrr en í janúar. Við hugsuðum aldrei um meistaratitilinn, heldur að leggja hart að okkur til að bæta okkur og svo unnum við leik eftir leik.“

Þróttur hafði yfirburði í leiknum í kvöld og skoraði Afturelding aldrei meira en 17 stig í hverri hrinu. Mosfellsbæjarliðið var í miklum vandræðum með að taka á móti uppgjöfum eða sóknum Þróttar og þá sjaldan sem það náði gagnsókn virtist Þróttarliðið vita hvar boltinn kæmi.

„Við vorum búnar að stúdera þær og vorum harðákveðnar í að vinna í kvöld. Ég lít þó aldrei á leiki sem auðvelda, ef þú slakar á augnablik geturðu fengið á þig nokkur stig í röð og þá ertu komin í vandræði. Við vorum hins vegar mjög einbeittar í kvöld eins og stigataflan sýnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert