Ógeðslega stolt af stelpunum

Leikmenn Þróttar fagna í kvöld.
Leikmenn Þróttar fagna í kvöld. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar, var kát í leikslok eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna með 3-0 sigri á Aftureldingu í þriðja leik liðanna í úrslitaviðureigninni í Neskaupstað í kvöld. Þróttur hafði yfirburði í leiknum.

„Við byrjuðum mjög vel, tókum vel á móti boltanum og um leið og við gerum það eigum við auðveldara með spilið sem gekk mjög vel. Við áttum líka góðar uppgjafir og þá eiga þær erfiðra með að spila boltanum. Það er mjög gott að ná að halda þeim undir 20 stigum í öllum hrinunum,“ sagði hún eftir leikinn.

Það var helst í þriðju hrinu sem Afturelding nartaði í Þrótt. Um miðja hrinu var jafnt en Mosfellsbæjarliðið komst aldrei yfir. Í vetur hefur Þróttur hins vegar stundum misst einbeitinguna í þriðju hrinunni.

„Ég var aldrei efins um okkur í fyrstu tveimur hrinunum en þær lágu í okkur í þriðju hrinunni. Við töluðum um að tapa henni ekki eins og við höfum stundum gert.“

En þegar á reynir var Þróttur einfaldlega mun sterkari og uppskar sinn þriðja titil í vetur. „Það var markmiðið og við náðum því. Ég er ógeðslega stolt af stelpunum í liðinu og þakklát þjálfurunum okkar Borja (Gonzales) og Balal (Önu Vidal). Við gætum þetta ekki án þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert