Þrjú Íslandsmet féllu í Egilshöll

Sigurvegararnir með verðlaunin sín.
Sigurvegararnir með verðlaunin sín. Ljósmynd/Skotfélag Reykjavíkur

Þrjú Íslandsmet féllu á Reykjavíkurmóti í skotfimi sem haldið var hjá Skotfélagi Reykjavíkur (SR) í Egilshöll í dag. Íris Eva Einarsdóttir (SR) setti nýtt Íslandsmet í loftriffli kvenna og skaut 605,4 stig og varð samtímis Reykjavíkurmeistari. Í öðru sæti varð Jórunn Harðardóttir (SR) með 595,3 stig og í þriðja sæti varð Bára Einarsdóttir úr Skotíþróttafélagi Kópavogs (SFK). 

Í unglingaflokki varð Viktoría Erla Bjarnarson (SR) Reykjavíkurmeistari á 547,5 stigum og í öðru sæti varð Alexandra Björg Vilhjálmsdóttir (SR) með 479,1 stig. Þær Íris, Jórunn og Viktoría settu einnig nýtt Íslandsmet í liðakeppni kvenna, 1748,2 stig.

Þriðja Íslandsmetið féll í loftriffli unglinga þar sem Magnús Guðjón Jensson bætti fyrra met sitt og skaut 568,1 stig, í öðru sæti varð Jakub Ingvar Pitak með 535,7 stig og þriðji varð Elmar Torstein Sverrisson með 502,8 stig. Þeir félagar eru allir í Skotdeild Keflavíkur (SK).

Í loftriffli karla náði Guðmundur Helgi Christensen (SR) Reykjavíkurmeistaratitlinum á 586,9 stigum, Robert Vincent Ryan (SR) hreppti annað sætið með 556,6 stig og í þriðja sæti varð Þórir Kristinsson (SR) á 543,6 stigum.

Reykjavíkurmeistari í loftskammbyssu karla varð Ásgeir Sigurgeirsson úr SR á 582 stigum, Þorlákur Bernhard náði öðru sæti með 514 stig og félagi hans Ingvi Eðvaldsson úr Skotdeild Keflavíkur varð þriðji með 513 stig. Reykjavíkurmeistari í loftskammbyssu kvenna varð Jórunn Harðardóttir (SR) á 553 stigum og í öðru sæti varð Bára Einarsdóttir úr SFK með 527 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert