Sætur sigur Hilmars „heima“ í Virginíu

Hilmar Örn Jónsson er frjálsíþróttakarl ársins.
Hilmar Örn Jónsson er frjálsíþróttakarl ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hilmar Örn Jónsson, frjálsíþróttakarl ársins 2017 á Íslandi, vann afar sætan sigur í sleggjukasti á Virginia Challenge háskólamótinu í Charlottesville í Virginíu um helgina. Sigurkast Hilmars kom í sjöttu og síðustu tilraun, en með gullverðlaunin í húfi kastaði hann 71,09 metra. Það var átta sentimetrum lengra en hjá þeim sem endaði í 2. sæti, Morgan Shigo.

Hilmar Örn var á heimavelli en FH-ingurinn keppir fyrir Virginíu-háskólann. Kastið var hans besta á þessu ári en hann náði tveimur köstum yfir 70 metra á mótinu og var það fyrra upp á 70,44 metra. Á ferli sínum hefur Hilmar lengst kastað 72,38 metra en það gerði hann á bandaríska háskólameistaramótinu, NCAA, í Eugene í fyrrasumar og endaði í 4. sæti.

Í frétt á vef frjálsíþróttadeildar Virginíu-háskólans segir að með árangri sínum um helgina sé Hilmar nú í 8. sæti á lista þeirra sem gjaldgengir eru á NCAA-meistaramótið í sumar. „Það var gott að sjá tvo NCAA-keppendur okkar, Pobo og Hilmar, sýna sitt besta þegar mest lá við. Púslbitarnir eru að raðast rétt saman,“ sagði Bryan Fetzer, yfirmaður frjálsíþróttadeildar skólans.

NCAA-meistaramót þessa árs fer fram í Eugene í Oregon dagana 6.-9. júní, en næst á dagskrá hjá Hilmari er keppni á Atlantshafsstrandarmótinu, ACC, stóru svæðismóti sem fram fer í Miami dagana 10.-12. maí. Hilmar hefur unnið mótið síðustu tvö ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert