„Bærinn er uppseldur“

Frá keppni í Fossavatnsgöngunni í fyrra.
Frá keppni í Fossavatnsgöngunni í fyrra. Ljósmynd/Gústi

Sprenging hefur orðið í aðsókn að Fossavatnsgöngunni á Ísafirði á undanförnum árum.

Er svo komið að í ár, eins og í fyrra, er ekki hægt að taka á móti fleiri keppendum þótt áhugi sér sannarlega fyrir hendi hjá skíðagöngufólki að fara vestur og taka þátt. Allt gistirými á Ísafirði er bókað auk þess sem mikið er um að fólk gisti í heimahúsun og öðru því húsnæði er fáanlegt er á Ísfafirði og nágrenni.

Daníel Jakobsson, formaður Fossavatnsgöngunnar, segir að um 1.100 keppendur hafi skráð sig til leiks að þessu sinni, líkt og á síðasta ári. Þar af eru 650 sem taka þátt í 50 km göngunni. Einnig er keppt í 25 og 12,5 km göngu.

Daníel segir skýringar á þessum mikla áhuga fyrir þátttöku í Fossavatnsgöngunni, ekki síst 50 km göngunni þar sem fjöldi útlendinga mætir til leiks, vera helst þá að fyrir fáeinum árum var Fossavatnsgangan tekin inn á dagskrá samtaka sem heita Worldloppet. Þar er um að ræða eina stóra göngu í nokkrum löndum víðsvegar um heim. Þeirra þekktust hér á landi er væntanlega Wasagangan í Svíþjóð. „Strax fyrsta árið eftir að við öðluðumst aðild að Worldloppet fengum við marga erlenda keppendur. Síðan hefur keppendum fjölgað ár frá ári með þeim afleiðingum að uppselt hefur verið í gönguna undanfarin þrjú ár,“ sagði Daníel í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ennfremur segir Daníel að skýringar á aukinni aðsókn sé að leita í vaxandi áhuga Íslendinga á skíðagöngu í kjölfar vakningar meðal almennings um aukna hreyfingu og útivist. Af þessu hefur m.a. leitt að af um 1.100 keppendum sé um helmingur Íslendingar. „Þetta er gríðarlega ánægjulegt,“ sagði Daníel.

Sjá allt viðtalið við Daníel í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert