Silfur og brons til Íslendinga (myndskeið)

Íslenski hópurinn ásamt Claus Bitsch, unglingalandsliðsþjálfara Þýskalands.
Íslenski hópurinn ásamt Claus Bitsch, unglingalandsliðsþjálfara Þýskalands. Ljósmynd/Karatesamband Íslands

Íslenskt karatefólk vann til silfurverðlauna og bronsverðlauna á stóru æfingamóti í Wald-Michelbach í Þýskalandi um nýliðna helgi.

Iveta Ivanova keppti til úrslita í Junior flokki í -53 kg flokki gegn Jil Auger frá Þýskandi. Sú þýska þykir ein fremsta von Þjóðverja í framtíðinni en hún og Ivanova eru í baráttu um sæti á ólympíuleikjum ungmenna sem haldnir verða í Argentínu í haust. Iveta leiddi bardagann þar til lítið var eftir en þá seig sú þýska fram úr og náði tæpum sigri, 4-3, eftir æsispennandi leik. Bardaga þeirra má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Íslandsmeistarinn Máni Karl Guðmundsson vann til bronsverðlauna í -67 kg flokki í U21 árs flokki. Hann vann fjóra bardaga en tapaði tveimur.

Samuel Ramos keppti í -57 kg flokki cadet (14 til 15) ára, vann einn bardaga og tapaði tveimur og komst því ekki nærri verðlaunasæti.

Claus Bitsch, unglingalandsliðsþjálfari Þýskalands, heldur árlegar æfingabúðir með móti í bænum og er helgin fullmönnuð þátttakendum hvert ár. Þetta skiptið var metfjöldi, nærri 700 þátttakendur frá Þýskalandi og víðsvegar frá Evrópu. Viðburðurinn er hluti af úrtöku fyrir þýska unglingalandsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert