Spænski boltinn í beinni á Facebook

Flautað verður til leiks í spænsku deildinni á föstudag, allt …
Flautað verður til leiks í spænsku deildinni á föstudag, allt saman í beinni á Facebook. AFP

Facebook hefur tryggt sér sýningarréttinn að spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta á Indlandsskaga næstu þrjú tímabil. Fyrirtækið hefur skrifað undir samning við La Liga, spænsku deildina, sem tryggir samfélagsmiðlinum einkarétt á sýningum á öllum 380 leikjum hvers tímabils á Indlandi, í Afganistan, Bangladesh, Bútan, Nepal, á Maldíveyjum, Srí Lanka og í Pakistan.

348 milljónir Facebook-notenda eru á Indlandsskaga, þar af 270 milljónir á Indlandi. Þeir munu geta horft á leikina frítt á Facebook. Alsjáandi augu fésbókar, og IP-tala notanda á að tryggja að fólk annars staðar í heiminum geti ekki notið góðs af samkomulaginu.

Facebook tekur við sýningarréttinum af Sony. Ekki liggur fyrir hvað Facebook borgaði fyrir sýningarréttinn, en Reuters greinir frá því að Sony hafi borgað 32 milljónir dollara, um 3,4 milljarða króna, fyrir réttinn að síðustu þremur tímabilum.

Spónn úr aski sjónvarpsstöðva

Í samtali við Reuters segir Peter Hutton, yfirmaður íþróttasýninga hjá Facebook, að sýningarnar verði fyrst um sinn auglýsingalausar en ekki er búist er við að það vari lengi. Hutton var áður forstjóri Eurosport en var ráðinn til Facebook í maí.

Samningurinn er enn eitt skrefið í innreið netfyrirtækja á markaði hefðbundinna kapalsjónvarpsstöðva. Í fyrra tryggði Facebook sér réttinn að MLS-hafnaboltadeildinni í Bandaríkjunum og talið að miðillinn borgi um milljón dali, 107 milljónir króna, fyrir réttinn að hverjum leik. Þeir leikir eru sýndir Bandaríkjamönnum að kostnaðarlausu en haldið uppi með auglýsingum sérsniðnum að áhorfendum.

AFP

Talið er að Facebook sé að þreifa fyrir sér á Asíumarkaði, þar sem sýningarrétturinn að boltanum er ódýrari, áður en haldið er til Evrópu þar sem rétturinn er dýrari. Fyrr á árinu var rétturinn að sýningum á enska boltanum í Bretlandi boðinn út til þriggja ára og þurfti sjónvarpsstöðin Sky að punga út 3,57 milljörðum punda, rétt um 500 milljörðum króna, til að halda honum.

Mánuður er síðan tilkynnt var um samkomulag milli Facebook og ensku úrvalsdeildarinnar um sýningar á boltanum tímabilin 2019-20, 2020-21 og 2021-22 í Kambódíu, Taílandi, Laos og Víetnam en fyrir það borgaði fyrirtækið 28 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert