Helgi í þriðja sæti á EM

Helgi kastaði lengst 51,51 metra í dag.
Helgi kastaði lengst 51,51 metra í dag. Ljósmynd/ÍF Sport

Spjótkastarinn Helgi Sveinsson vann til bronsverðlauna í dag á Evrópumóti fatlaðra sem nú fer fram í Berlín í Þýskalandi. Helgi kastaði lengst 51,51 metra en hann hefur unnið greinina á síðustu tveimur Evrópumótum. Þrátt fyrir að enda í þriðja sæti setti Helgi mótsmet í fötlunarflokki F63 en gamla metið var 50,74 metrar sem Helgi átti sjálfur. Það met setti hann í Swansea fyrir fjórum árum.

Frakkinn Tony Falelavaki tók gullið en hann kastaði spjótinu 54,74 metra. Roman Novak frá Úkraínu endaði í öðru sæti en hann kastaði 52,39 metra. Helgi keppti áður í flokki F42 en með breyttu landslagi í flokkunarmálum hjá Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra er nýtt flokksnúmer Helga F63. Hann var eini keppandinn í fötlunarflokki F63 í dag en sigurvegarinn frá Frakklandi var í flokki F44, áður en flokkarnir voru sameinaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert