Erfitt að fara að sofa

Stefán Ísak Stefánsson, fyrirliði blandaðrar unglingasveitar Íslands á EM í …
Stefán Ísak Stefánsson, fyrirliði blandaðrar unglingasveitar Íslands á EM í hópfimleikum 2018. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Það er spenna í mér fyrir keppninni og ekki laust við að það hafi tekið lengri tíma að sofna undanfarin kvöld,“ sagði Stefán Ísak Stefánsson, fyrirliði blandaðrar unglingasveitar Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum, en Stefán og félagar hans stíga fram á sviðið í undankeppni Evrópumótsins í Portúgal á morgun þegar keppni hefst á mótinu.

„Æfingin gekk vel í dag fyrir utan ökklameiðsli á einni stúlku í hópnum. Ég vona að meiðslin séu ekki alvarleg því þótt við höfum nógu stóran hóp til þess að taka við af einhverjum sem meiðast þá er alltaf leiðinlegt að verða fyrir meiðslum þegar á hólminn er komið,“ sagði Stefán Ísak.

Undirbúningurinn fyrir mótið hefur staðið yfir í marga mánuði. Stefán segir gaman að nú skuli sjást fyrir endann á öllu saman. Stefna liðsins sé að komast í úrslitin sem fara fram á föstudaginn. Til þess þarf íslenska sveitin að hafna í einu af sex efstu sætum undankeppninnar en í henni taka þátt lið frá tíu löndum. Ljóst er því að einhverjar sveitir sitja eftir með sárt ennið.

„Ég er nokkuð viss um að við komumst áfram í úrslitin en sannarlega er aldrei hægt að slá neinu föstu. En markmiðið er skýrt af okkar hálfu,“ sagði Stefán Ísak Stefánsson, fyrirliði blandaðrar sveitar unglinga á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert