Ég er í sjöunda himni

Blandaða unglingasveitin er komin á EM í hópfimleikum.
Blandaða unglingasveitin er komin á EM í hópfimleikum. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Markmið okkar í dag er í höfn og ég er í sjöunda himni,“ sagði Björk Guðmundsdóttir, einn þjálfara blandaðs liðs unglinga eftir að það hafnaði í fjórða sæti af tíu liðum í undankeppni Evrópumótsins í hópfimleikum í íþróttahöllinni í Odivelas í úthverfi Lissabon nú fyrir stundu. Sex efstu sveitirnar keppa til úrslita á mótinu síðdegis á föstudaginn.

„Árangurinn er í raun betri en við þorðum að vona. Það er frábært að vera í fjórða sæti í þessari keppni og ljóst að liðið er toppa á réttum tíma,“ sagði Björk sem réði sér vart fyrir kæti og skal engan undra eftir frábærar æfingar íslensku sveitarinnar sem varð aðeins 0,750 stigum á eftir bresku sveitinni sem varð í þriðja sæti. Danir og Svíar voru í nokkurri sérstöðu.

Björk sagði allar æfingarnar þrjá hjá liðinu hafi tekist vel. „Ég er ekki kannski búin að meta allt ennþá en mun gera það fljótlega. Ég fyrst og fremst í skýjunum núna með þennan flotta hóp sem stóð sig svo vel,“ sagði Björk ennfremur í samtali við mbl.is strax eftir að úrslitin lágu fyrir.

Björk sagði að lítilháttar meiðsli hefðu komið upp hjá keppendunum í dag en væntanlega væri ekkert af þeim alvarleg. Næsta skref væri að fara yfir málin með sjúkraþjálfara landsliðsins. „Nokkrir fengu högg á ökklana en ég vænti þess að það hafi ekkert að segja á föstudaginn. Þá mætum við enn sterkari til keppninnar,“ sagði Björk Guðmundsdóttir, einn þjálfara blandað unglingalandsliðsins sem tryggði sér keppnisrétt í úrslitum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert