Hún getur farið eins langt og hún vill

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fagnar sigrinum í Buenos Aires í gær.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fagnar sigrinum í Buenos Aires í gær. Ljósmynd/ÍSÍ

„Hún vissi sjálf þegar hún átti nokkra metra eftir að hún væri búin að vinna, því forskotið var það gott eftir fyrri umferðina,“ segir Brynjar Gunnarsson, þjálfari Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur hjá ÍR, en hún varð í gær ólympíumeistari ungmenna í 200 metra hlaupi.

Brynjar og Guðbjörg Jóna eru stödd í Buenos Aires þar sem leikarnir fóru fram en lokahátíð þeirra er á morgun. Þau koma svo heim til Íslands á laugardaginn, eftir hreint út sagt magnað keppnistímabil þar sem ólympíumeistaratitillinn, og gull í 100 metra hlaupi og brons í 200 metra hlaupi á EM 17 ára og yngri í sumar, standa upp úr.

„Maður gat kannski ekki alveg séð fyrir þessa toppa hjá henni en það var alveg viðbúið að henni myndi ganga vel á þessu keppnistímabili. Hún er búin að vera góð lengi, búin að vera sífellt að bæta sig lengi, og var löngu komin með lágmörk inn á öll mótin. Það var því markvisst hægt að vinna að því að hún myndi toppa á þessum mótum, bæði EM og núna. Það gekk eftir,“ segir Brynjar.

Vissi fyrir síðustu metrana að hún hefði unnið

Guðbjörg Jóna hefur lengi æft frjálsar íþróttir og fyrir um tveimur árum fór hún að einbeita sér alfarið að spretthlaupum. Hún stendur best að vígi í 200 metra hlaupi en er einnig afar sterk í 100 metra hlaupi og jafnvel 400 metra hlaupi.

Keppnisfyrirkomulagið á Ólympíuleikum ungmenna er talsvert ólíkt því sem þekkist í frjálsum íþróttum en keppt var í tveimur umferðum og gilti samanlagður árangur í báðum umferðum. Guðbjörg Jóna átti langbesta hlaupið í fyrri umferð og það næstbesta í seinni umferðinni, og bætti Íslandsmet sitt í báðum hlaupum.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á verðlaunapallinum í Buenos Aires.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á verðlaunapallinum í Buenos Aires. Ljósmynd/ÍSÍ

„Bæði hlaupin töldu og hún undirbjó því fyrra hlaupið á allan hátt eins og úrslitahlaup. Hún náði að negla það rosalega vel. Í seinna hlaupinu var í raun formsatriði að klára dæmið. Hún vissi sjálf þegar hún átti nokkra metra eftir að hún væri búin að vinna, því forskotið var það gott eftir fyrri umferðina,“ segir Brynjar.

Það er ekkert að hægjast á henni

Spurður um framtíðina hjá Guðbjörgu Jónu, og hvort aðstæður á Íslandi séu nægilega góðar fyrir hana til að komast einnig í fremstu röð í flokki fullorðinna, segir Brynjar:

„Aðstæðurnar heima eru mjög fínar á veturna, þegar Laugardalshöllin er opin, og aðstaðan á sumrin er að batna með tilkomu nýs vallar á ÍR-svæðinu. Hún hefur alla burði til að fara eins langt og hún vill. Hún er enn þá að bæta sig það mikið, og það verður bara gaman að sjá hvert það leiðir hana. Á þessu ári hefur hún bætt sig um rúmlega hálfa sekúndu í 200 metra hlaupi, sem er gríðarlega mikið, og árið þar áður eitthvað svipað. Það er ekkert að hægjast á henni,“ segir Brynjar. Háleit markmið á borð við HM fullorðinna á næsta ári og Ólympíuleikana í Tókíó árið 2020 eru því inni í myndinni:

„Hlaupið hennar núna hefði dugað til að komast á EM fullorðinna í Berlín í ár. Hennar helstu greinar, 100 og 200 metra hlaup, eru ekki í boði innanhúss en hún gæti gælt við 60 metra hlaup þar. Svo þarf bara að hugsa um næsta sumar. HM-lágmörk hafa ekki verið gefin út en hún þarf líklega að bæta sig smá til að komast á HM í Doha næsta sumar. Við bíðum og sjáum hvert lágmarkið verður en stefnum svo líklega á það,“ segir Brynjar.

Ítarlegt viðtal við Guðbjörgu Jónu má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Brynjar Gunnarsson, þjálfari Guðbjargar Jónu, fylgdi henni eftir í Buenos …
Brynjar Gunnarsson, þjálfari Guðbjargar Jónu, fylgdi henni eftir í Buenos Aires. Ljósmynd/ÍSÍ
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert