Semenya berst gegn nýjum reglum

Caster Semenya
Caster Semenya AFP

Caster Semenya, ólympíumeistar kvenna í 800 metra hlaupi, freistar þess að fá hnekkt nýjum reglum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins sem kveða á um að hámark karlkynshormóna í líkama kvenna sem keppa í hlaupum í mótum á vegum sambandsins. 

Til stóð að nýju reglurnar tækju gildi 1. nóvember næstkomandi en Semenya ætlar að leita réttar síns fyrir dómstolum. Testosterone mælist hátt í henni sem er óvenjulegt hjá konum en hún hefur þó aldrei fallið á lyfjaprófi. 

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur ákveðið að fresta málinu á meðan kæra Semenyu er tekin fyrir. Að óbreyttu taka nýju reglurnar gildi 26. mars 2019 nema ólympíumeistaranum verði eitthvað ágengt. 

Nýju reglurnar kveða á um að til þess að geta keppt í hlaupagreinunum þurfi konur að halda testosteronemagni undir leyfilegu hámarki alla vega sex mánuðum fyrir keppni. Slíkt er hægt að gera með lyfjameðferð. 

Semenya er 27 ára og kemur frá S-Afríku. Hún er bæði heims- og ólympíumeistari í 800 metra hlaupi, aðalgrein Anítu Hinriksdóttur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert