Komum með sprengju inn í úrslit

Magnús Óli Sigurðsson t.v. fylgist með Marín Elvarsdóttur í stökkkeppninni …
Magnús Óli Sigurðsson t.v. fylgist með Marín Elvarsdóttur í stökkkeppninni í dag. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Við eigum inni bæði í dansi og í stökkunum þótt frammistaðan  hafi verið afar góð í dag,“ sagði Magnús Óli Sigurðsson einn þjálfara blandaðrar sveitar fullorðinna í samtali við mbl.is í dag eftir að sveitin tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í hópfimleikum í dag með framúrskarandi frammistöðu. Sveitin hafnaði í þriðja sæti en afar litlu munaði á íslensku sveitinni og þeirri sænsku sem varð efst.

„Við getum gert stökkin hreinni auk þess sem við vorum með tvær djúpar lendingar á dýnunni og eitt fall á trampolíninu.  En þetta leit mjög vel út af flestu leyti hjá krökkunum og mér fannst gaman að standa álengdar og fylgjast með hópnum keppa af þessum mikla krafti. En skal lofa því að við komum með sprengju inn í úrslitin á laugardaginn,“ sagði Magnús Óli og var ekkert að skafa utan var því. Hann stefnir semsagt á að íslenski hópurinn taki úrslitakeppnina með trompi.

„Nú köstum við mæðinni í kvöld og setjum svo yfir og greinum frammistöðu okkar á fundum á morgun. Auk þess þá verður nóga að gera hjá sjúkraþjálfurum okkar að halda keppendum í heilum fyrir átökin sem framundan eru. Svo kemur bara að okkur að púsla öllu rétt saman fyrir stóru stundina á laugardaginn. Þá getur niðurstaðan orðið frábær,“ sagði Magnús Óli Sigurðsson,  einn þjálfara blandaða landsliðsins í hópfimleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert