Aðeins reykurinn af réttunum í gær

Kvennalandsliðið í dansi í undankeppni. Liðið fékk hæstu einkun allra …
Kvennalandsliðið í dansi í undankeppni. Liðið fékk hæstu einkun allra í undankeppninni. mbl.is

„Þetta var rosalegt og svo gaman. Það svo góð tilfinning að fara inn í úrslitadaginn með þessa góðu tilfinningu eftir undankeppnina. Þar af leiðandi verðum við enn rólegri og öruggari með okkur,“ sagði Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum, við Morgunblaðið eftir að liðið tryggði sér örugglega sæti í úrslitum á Evrópumeistaramótinu á morgun.

Liðið hafnaði í öðru sæti með 55.100 stig en Svíar voru efstir og Danir í þriðja sæti.

„Við getum vaflaust eitthvað lagað en nær allt var alveg frábært hjá okkur,“ sagði Tinna Ólafsdóttir sem einnig er í kvennaliðinu en hún var í stúlknalandsliðinu fyrir tveimur árum sem varð Evrópumeistari. „Við vorum kannski ekki alveg nógu öruggar í trampolínstökkunum en það er eitthvað sem við gerum betur þegar á hólminn verður komið,“ sagði Tinna ennfremur.

Íslenska sveitin fékk langhæstu einkunn sem gefin var fyrir dansinn í undankeppninni í gær, 21.450 stig. Svíar voru næstir með 20.700 stig. „Við fundum okkur æðislega vel í dansinum og síðan voru dýnustökkin í lokin nokkuð örugg,“ sagði Andrea Sif fyrirliði sem lofar því að frammistaðan í gærkvöld hafi aðeins verið reykurinn af réttunum sem boðið verður upp á á laugardaginn.

„Það er ágætt að hafa ekki verið með allt fullkomið að þessu sinni. Þá er hætt við að næsta keppni okkar yrði ekki eins góð,“ sagði Andrea  Sif við ennfremur.

Athygli vöktu mögnuð stökk liðsins á dýnunni í lokaumferðinni. Áhorfendur supu hveljur þegar stúlkurnar buðu upp á stórkostlega sýningu sem ekki fékk þó hæstu einkunn hjá dómurunum. Andrea og Tinna sögðu stökkin vera nánast eins og þau sem karlmenn stökkva í þessum flokki, en óvenjulegt er að konur feti í spor karla í stökki. „Þetta eru kölluð karlastökk og eru mjög kúl,“ sagði Andrea  Sif Pétursdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins, en boðið verður upp á svipaða stökkröð í úrslitunum á morgun.

Sjá allt um Evrópumótið í hópfimleikum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert