Hitnar í kolunum í Odivela

Blandað landslið unglinga sem tekur þátt í Evrópumótinu í hópfimleikum …
Blandað landslið unglinga sem tekur þátt í Evrópumótinu í hópfimleikum 2018. Ljósmynd/Kristinn Arason

Í kvöld hitnar hressilega í kolunum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í íþróttahöllinni í Odivela í úthverfi Lissabon. Keppt verður til úrslita í þremur flokkum unglinga.

Tvær íslenskar sveitir verða í eldlínunni, annarsvegar blandað lið unglinga og hinsvegar stúlknalandsliðið.

Alls taka sex sveitir þátt í úrslitum í hverjum flokki. Stúlknasveit Íslands etur kappi við lið frá Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Bretlandi. Íslenska sveitin hafnaði í öðru sæti í undankeppninni eftir að hafa lokið dansinum í þriðju og síðustu umferð með glæsibrag og fékk hæstu einkunn af sveitunum tíu, 20.800 stig. Auk stúlknanna á Katrín Pétursdóttir þjálfari heiðurinn af frábærum dansi en hún hefur lagt mikla vinnu í þjálfun atriðisins með hópnum.

Fyrir dýnustökk fékk sveitin 15.550 og 14.850 stig fyrir trampolínstökk sín. Ljóst er að íslenska sveitin getur gert talsvert betur í stökkgreinunum og takist eins vel upp í dansinum er góður möguleiki á að stúlknasveitin blandi sér alvarlega í baráttuna um gullverðlaunin. Svíar fengu 53.200 stig samtals í undankeppninni en íslenska sveitin 51.200. Danir voru í þriðja sæti með 50.050. Finnar voru skammt á eftir.

Getum lagað eitt og annað

„Það er mjög gott að fara inn í úrslitin með það í huga að við getum lagað eitt og annað sem tókst ekki sem skyldi í undankeppninni,“ sagði Jónas Valgeirsson, einn þjálfara stúlknalandsliðsins. „Það var svolítið stress í hópnum í upphituninni fyrir undankeppnina en stúlkurnar unnu sig úr út stressinu fyrir dýnustökkið en því miður þá var ákveðið óöryggi í þeim þegar kom að trampolínstökkunum,“ sagði Jónas ennfremur og bætti hreinskilnislega við: „Við erum með lið sem hefur getu til þess að komast á verðlaunapall á mótinu. Hinsvegar eigum við eftir að sanna að við eigum það skilið. Auðvitað verða það vonbrigði takist okkur ekki að vinna til verðlauna. Ef önnur lið verða einfaldlega betri en við á góðum degi þá verður svo að vera. Liðið þarf bara að skila sínu. Það er það eina sem það getur gert. Við ráðum ekki við það sem andstæðingurinn gerir,“ sagði Jónas Valgeirsson, einn þjálfara stúlknalandsliðsins í samtali við Morgunblaðið.

Sjá allt um Evrópumótið í hópfimleikum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert