Slök þriðja lota varð SA að falli

Íslandsmeistarar SA máttu þola tap.
Íslandsmeistarar SA máttu þola tap. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslandsmeistarar karla í íshokkí, SA, þurftu að sætta sig við 6:3-tap fyrir Donbass frá Úkraínu í öðrum leik sínum í 2. umferð Evrópubikarsins í Lettlandi í dag. Leikurinn var jafn og spennandi en Úkraínumennirnir voru sterkari í lokin. 

Ilia Smirnov kom Donbass yfir eftir tæplega tveggja mínútna leik en Jussi Sipponen jafnaði aðeins 40 sekúndum síðar og var staðan eftir fyrstu lotu jöfn, 1:1. 

Thomas Stuart-Dant kom SA yfir snemma í annarri lotu, áður en Andri Denyskin jafnaði um miðbik lotunnar og var staðan fyrir þriðju og síðustu lotuna því 2:2. 

Ilya Karanchuk kom Donbass aftur yfir á 45. mínútu. SA gafst ekki upp því Kristján Árnason jafnaði í 3:3, fjórum mínútum fyrir leikslok. Það dugði hins vegar skammt því Sevastian Karpenko, Vitali Kirushchankau og Uladzislau Hancharou skoruðu allir fyrir Dunbass á lokakaflanum. 

SA er búið að tapa báðum leikjum sínum í riðlinum til þessa og mætir liðið Txuri Urdin frá Spáni í lokaleik sínum á morgun kl. 11. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert