Bætum inn strákastökkum og vinnum næst

Hluti kvennalandsliðsins sem hlaut silfurverðlaun á á EM í hópfimleikum …
Hluti kvennalandsliðsins sem hlaut silfurverðlaun á á EM í hópfimleikum í gær. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Munurinn á okkur og Svíum er nánast enginn, segja má að hann sé innan skekkjumarka. Það þarf ekki nema að einn dómari væri ósammála öðrum. Ef hægt væri að gera jafntefli í hópfimleikum þá er þetta jafntefli,“ sagði Ásta Þyri Emilsdóttir, einn þjálfara kvennalandsliðsins í hópfimleikum, við mbl.is eftir að liðið varð í öðru sæti á Evrópumeistaramótinu í Odivela í úthverfi Lissabon í gær.

Aðeins munaði 0,200 stigum á íslensku og sænsku sveitinni þegar upp var staðið. Sænska sveitin fékk 57.650 stig en sú íslenska 57.450 stig eftir stórbrotna frammistöðu þar sem íslenska sveitin vann tvær greinar af þremur.

„Flestallt gekk upp hjá stelpunum í dag. Valgerður Sigfinnsdóttir, sem verið hefur í liðinu frá 2012, meiddist í undankeppninni á fimmtudaginn og var ekki með í dag. Þar var skarð fyrir skildi. Það kom nýr liðsmaðurinn í dansinn fyrir Valgerði og leysti sitt hlutverk frábærlega þrátt fyrir að hafa fengið mjög skamman tíma til þess að læra sitt hlutverk. Svona lið á ekkert annað skilið en að standa á efsta palli,“ sagði Ásta Þyri.

Spurð hvaða lærdóm mætti draga af þátttökunni að þessu sinni, en íslenska kvennasveitin hefur hlotið silfurverðlaun á þremur Evrópumótum í röð, sagði Ásta Þyri að nú yrði bara halda áfram að bæta í, auk erfiðleika æfinganna. „Þannig að næst þegar við mætum á Evrópumót þá verðum við framúrskarandi á öllum sviðum. Nú þegar erum við með framúrskarandi lið í dýnustökkum í dansi. Næst er að verða framúrskarandi í trampolínstökkum. Bætum einhverjum strákastökkum við okkur og þá verður enn sætara að vinna gullið á næsta Evrópumóti í Kaupmannahöfn eftir tvö ár,“ sagði Ásta Þyri Emilsdóttir í samtali við mbl.is í Odivela í Portúgal í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert