Davíð og Kristófer komust í undanúrslit

Kristófer Darri Finnsson og Róbert Þór Henn kepptu báðir í …
Kristófer Darri Finnsson og Róbert Þór Henn kepptu báðir í Grikklandi. Ljósmynd/Badmintonsamband Íslands

Um helgina voru níu íslenskir keppendur í eldlínunni í Grikklandi þar sem þau tóku þátt í alþjóðlegu badmintonmóti sem þar var haldið, Hellas Open 2018. Mótið er hluti af International Series-mótaröðinni og gefur stig á heimslistann. 

Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson fóru alla leið í undanúrslit á þessu móti og fá því mjög góð stig á styrkleikalistanum í tvíliðaleik karla. Í 32-liða úrslitum mættu þeir Utkarsh Arora og Svarnaraj Bora frá Indlandi og unnu þann leik 21:18 og 25:23. Í 16-liða úrslitum mættu þeir Íslendingunum Eið Ísak Broddasyni og Róberti Þór Henn og unnu þann leik nokkuð örugglega 21:8 og 21:15. Í 8-liða úrslitum mættu þeir ítölsku pari og var sá leikur mjög jafn en fór svo að Davíð og Kristófer unnu 21:19 og 21:18. Í undanúrslitum mótsins spiluðu þeir gegn Pólverjunum Adrian Dziolko og Michal Rogalski og þurftu Davíð og Kristófer að játa sig sigraða 21:11 og 21:17. 

Adrian og Michal hófu keppni í forkeppni mótsins þar sem þeir slógu út Íslendingana Jónas Baldursson og Daníel Jóhannesson í spennandi leik 22:20 og 19:12.

Í einliðaleik tóku Kristófer Darri, Jónas, Daníel, Róbert Þór og Eiður Ísak þátt í forkeppninni en allur duttu út í fyrstu umferð hennar. Kári Gunnarsson hóf keppni í aðalkeppni mótsins og í fyrstu umferð mætti hann Simon Wang frá Þýskalandi og vann Kári eftir oddalotu 21:11, 17:21 og 21:12. Í 16-manna úrslitum mætti Kári Finnanum Iikka Heino sem var raðað nr. 3 inn í mótið. Vann Iikka þann leik 21:13 og 21:17. 

Í einliðaleik kvenna kepptu Arna Karen Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir en báðar komust beint inn í aðalkeppni mótsins. Báðar þurftu þó að játa sig sigraðar í fyrstu umferð. Arna Karen og Sigríður spiluðu svo saman í tvíliðaleik kvenna. Í 32-liða úrslitum unnu þær Jennifer Kobelt og Tinu Kumpel frá Sviss 21:15 og 21:11. Í 16-liða úrslitum mættu þær dönsku pari og var á brattann að sækja í þeim leik. Fór svo að þær dönsku unnu 21:7 og 21:10.

Í tvenndarleik átti Ísland tvö pör. Davíð Bjarni og Arna Karen tóku þátt í forkeppni mótsins þar sem þau spiluðu mjög spennandi leik. Þau spiluðu gegn Gianmarco Bailetti og Lisu Iversen frá Ítalíu. Fór leikurinn í oddalotu og fór svo að Gianmarco og Lisa unnu 18:21, 22:20 og 21:19. Daníel og Sigríður komust beint inn í aðalkeppni mótsins og mættu þau Dönunum Emil Hybel og Line Fleischer. Unnu Emil og Line 21:9 og 21:12.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert